Ferðalög inn á hin ýmsu svið sálarinnar í gegnum heilunarhugleiðslur, auka næmni og innri sýn og stuðla þannig að sjálfsþekkingu sem er okkar sterkasta afl til heilunar. Efling í gegnum sjálfsþekkingu gefur okkur hugrekki til að gera þær breytingar á lífi okkar sem við þurfum til að öðlast lífsfyllingu. Þessar hugleiðslur hjálpa okkur að koma á meðvitaðri tengingu við æðra sjálfið og finna þannig leið sálarinnar. Við eflum næmni okkar þar sem hún er sterkust en aukum einnig og opnum fyrir næmni á öðrum sviðum. Þessi sjálfsþekkingarvinna grundvallast á því að læra að skilja og sjá okkur sjálf og aðra í ljósi kærleika og fyrirgefningar. Unnið er í gegnum tákn, ímyndir , ævintýri og dæmisögur sem allt eru táknmál sálarinnar sem talar oftar en ekki til okkar í táknum eins og í draumum okkar.
Andlegir leiðbeinendur geta komið til okkar í efnislíkama en við tengjumst líka ljósi æðri leiðbeinenda í gegnum bænir okkar og hugleiðslur. Bænir okkar eru oftast meðvitaðar en óskir, langanir og þrár eru líka orka sem við sendum frá okkur, alveg eins og bænin. Þess vegna þurfum við að vera meðvituð um hugsanir okkar, læra að þekkja okkur sjálf, vita hvað það er sem við raunverulega viljum og hvað þjónar okkar æðsta tilgangi.
Þegar við erum vel tengd okkar æðra sjálfi (okkar innsta kjarna) treystum við innsæi okkar og höfum sterka tilfinningu fyrir réttri stefnu í lífinu.
Tengingin við æðra sjálfið (kjarnann) getur skaðast við áföll, hvort sem þau eru líkamleg eða andleg. Flest komum við með áföll úr fyrri jarðvistum inn í þetta líf sem við eigum eftir að vinna
úr. Lífsgangan í þessari jarðvist kemur svo með sín áföll og búsorgir sem við þurfum að vinna með svo að þessi sár standi
ekki í vegi fyrir lífsfyllingu okkar og hamingju.
Í dag getum við valið úr ótal leiðum til heilunar og andlegrar iðkunar. Geðlæknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og annað fagfólk geta hjálpað okkur með úrvinnslu tilfinninga og bjóða oft bæði upp á hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir. Dáleiðsla, stjörnuspeki og heilun eru t.d. óhefðbundnar leiðir sem henta mörgum en aðrir kjósa að fara hefðbundnar leiðir. Mikilvægt er að okkur líði vel hjá meðferðaraðilanum, að traust sé til staðar og að við fáum þá tilfinningu að við séum á réttum stað.
Andleg iðkun er mjög mikilvæg til að styrkja tenginguna milli sálar og líkama. Trú á eitthvað æðra persónunni, eitthvað sem er hafið yfir hið daglega líf, hvort sem það er kjarni okkar, guð eða trú sem byggist á visku, kærleika og umburðarlyndi. Eitthvert afl sem er hafið yfir vanmátt mennskunnar og stuðlar að heilun og þróun sálarinnar.
Margir skynja nærveru æðri máttar við andlega ástundun; það gefur upphafið ástand sem er mjög nærandi og styrkjandi. Þessu er lýst á marga vegu, t.d. sem djúpri innri kyrrð, upplifun í ljósi, alsælu, skynjun genginna ættfeðra, engla, ljósvera eða viturra öldunga. Upplifun hvers og eins er mjög persónubundin en flestir tala um að henni fylgi mikill friður, vernd og öryggi.
„Daglega lífið er hinn andlegi skóli lífsins“
–Paul Brunton
Lífsreynslan er okkar besti kennari svo framarlega sem við erum tilbúin að læra af henni. Til þess getum við notið handleiðslu sálarinnar og verðugra leiðbeinenda sem hjálpa okkur að öðlast dýpri skilning á lífinu og mannlegri breytni.
Við getum líka meðvitað skoðað hverju er endurspeglað til
okkar frá umhverfinu. Dæmi: Ef einhver sýnir okkur ekki verðskuldaða virðingu getur spegilmyndin verið sú að við sýnum öðrum ekki nógu mikla virðingu eða við sýnum sjálfum okkur
ekki nógu mikla virðingu. Það getur líka komið fyrir að við séum ekki metin að verðleikum og þurfum að skipta um félagsskap eða umhverfi.
Stjörnuspeki
Sú tíð er liðin að verja þurfi tilvist stjörnuspekinnar. Vísindin hafa sýnt og sannað að mismunandi tíðnisveiflur í umhverfinu hafa áhrif á okkur. Við vitum að munur á ljósi, lit og hljóði er spurning um sveifluhraða og að há tíðni hljóðs getur til dæmis haft mjög neikvæð áhrif á heilsu manna en náttúruhljóð eða falleg tónlist hins vegar aukið vellíðan. Pláneturnar hafa mjög ólíka tíðni og hafa því ólík áhrif á okkur.
Svo virðist sem margir eiginleikar okkar einkennist af stöðu himintunglanna eins og hún er þegar við fæðumst til jarðarinnar.
Staða plánetanna er breytileg frá degi til dags og við getum lært að þekkja og nýta okkur þessa orku á jákvæðan hátt. Þau plánetuáhrif sem flest okkar sjá í umhverfinu og finna fyrir eru sennilega áhrif frá fullu tungli. Frá því löngu fyrir Krist hafa kennimenn og spekingar rannsakað áhrif gangs himintunglanna á mennina og notað þau sem gagnlegt tæki til leiðbeininga á þroskabrautinni. Svissneski geðlæknirinn Carl Gustaf Jung nýtti sér þessa speki eftir að hafa rannsakað notagildi hennar.
Karma
Karma er það sem kallað er lögmál orsaka og afleiðinga. „Þú uppskerð eins og þú sáir.“ Karmalögmálinu er ætlað að kenna okkur að læra af reynslunni. Þegar við gerum öðrum gott eða illt og erum ómeðvituð um áhrif gerða okkar vöknum við til meðvitundar við að ganga í gegnum sömu reynslu sjálf.
Þegar við höfum lært af reynslunni vex samkennd okkar og siðferðisþrek. Við erum öll breysk, við lærum af mistökum, stundum af því að breyta gegn betri vitund en líka af góðverkum okkar. Þannig er karma sjálfskapað.
Andlegur skilningur leysir mennina undan álögum karma.
Draumar
Sálin og okkar æðri leiðbeinendur vinna með okkur á nóttunni meðan líkaminn hvílist. Góður svefn er því mjög mikilvægur og það að ætla sér nægilegan tíma til að sofa. Mikil hreinsun og andleg vinna fer fram á nóttunni. Talað er um að sálin tali til okkar í táknum sem við þurfum að læra að skilja hvert fyrir sig. Mörg táknin virðast almenn en sum litast af menningu, trú og oft fjölskyldusögu. Eftir því sem við lærum betur að túlka drauma okkar og vinna með þá eykst innsæi okkar og einnig upplýsingastreymið í gegn.
Endurholdgun – fyrri líf
Það er álit margra þeirra sem gert hafa rannsóknir á fyrrilífsfyrirbrigðum að undirvitundin geymi ekki bara minningar frá barnæsku heldur einnig frá fyrri jarðlífum. Talið er að flest okkar hafi að geyma stórt safn minninga frá fyrri lífum þar sem við höfum leikið ýmis hlutverk allt eftir því hvað sálin er að læra hverju sinni.
Bæði draumavinna, vinna með fyrri líf og ýmsar hugleiðsluaðferðir lúta þeim tilgangi að vinna með undirvitundina, þ.e. gera meðvitaða þá þætti sem þar er að finna og geta varpað ljósi á það sem við erum að vinna með í dag.
Joel L. Whitton er geðlæknir og sálfræðingur í Toronto í Kanada og starfar einnig við háskólann í Toronto. Hann notar fyrrilífsdáleiðslumeðferð til að rannsaka andlegar víddir manneskjunnar en einnig til lækninga og hefur náð mjög góðum árangri með þessu meðferðarformi.
Joe Fisher skrifar um vinnu Dr. Whittons í bókinni Líf milli lífa þar sem Whitton skoðar tilveru sálarinnar milli dauða og endurfæðingar. Joe Fisher er einnig höfundur bókarinnar The case for reincarnation, þar sem hann segir meðal annars frá rann sóknum Dr. Ian Stevenson, sem var prófessor í geðlækningum við Virginiuháskóla í Bandaríkjunum, og Hernandes Banerjee. Rannsóknirnar voru aðallega tengdar börnum sem segja frá upplifunum af því að hafa lifað áður og flestar frásagnirnar var hægt að sannreyna.
Uppi eru kenningar um að þegar okkur eru sýndar fyrrilífsmyndir, annaðhvort í draumi eða í dáleiðslu, sé annars vegar um að ræða fyrri líf sem raunverulega áttu sér stað og hins vegar sögur og myndir sem æðra sjálfið dregur upp fyrir okkur til að hjálpa okkur að vinna úr áföllum.